mánudagur, mars 20, 2006

Hestar og menn


Nei þetta er ekki Öskudagsmynd þótt ótrúlegt sé. Þessi afar skemmtilega mynd er tekin á söngvakeppninni sem haldin var um síðustu helgi. Keppnin var hin ágætasta enda nær fullt hús og stuð á liðinu. Brynja rúllaði þessu upp með flottri útgáfu af Janis Joplin laginu Me and Bobby McGee. Svo mjög fékk þessi flutningur á þá Vallabræður, að þeir stukku upp úr sætum sínum, æjuðu og óuðu, tilbáðu æðri máttavöld, féllust í faðma og fögnuðu sem óðir væru. Eftir að hafa fagnað eins og Húsvíkingar álverinu, skáluðu þeir í botn og skildist ekkert hvað þeir sögðu restina af kvöldinu. Næstu sæti tóku þeir Gústi ,,bjargvættur” og Hafþór Hallmunds, voru báðir ágætir en ég hefði frekar kosið Sveinbjörgu og Munda í annað og þriðja, en missi samt ekkert svefn yfir þessu.


Síðasta laugardagskvöld fór ég á hestasýningu í reiðhöllinni á Blönduósi. Já þið lásuð rétt. Kjartan í sjoppunni plataði mig með og skal það tekið fram að loforð um bjór, partý og koníak átti engan þátt í þessu ferðalagi mínu..............
Við komum vel tímanlega í höllina en þá var nær uppselt, og neyddumst við því til að sitja eins og fiskibollur í dós úti í horni á einhverjum þeim harðasta trébekk sem mitt rassgat hefur þurft að þola. Mér hefði ekki liðið verr á hnakklausu reiðhjóli.

En sýningin var ágæt, atriðin frekar rislítil fyrir hlé en batnaði til muna eftir það. Langlíflegasta atriði kvöldsins var tvímælalaust þegar Kjartan gólaði uppfyrir sig eins og smástelpa og henti sér í fangið á Haddý eftir að einhver ferfætlingurinn hneggjaði, já hann missti svo sannarlega kúlið um tíma. Önnur góð atriði voru sýningin hjá ræktunarbúinu á Völlum, Rauðu dívurnar (Hedda og félagar), Merin hennar Helgu Unu og að sjálfsögðu Töltmeistarinn sem hefði jafnvel fengið Björgvin Brynjólfsson til að sýna vott af áhuga á hestamennsku, annan en til átu.
Að lokum vil ég biðja heyrnarlausa dj-inn að henda Best of Haddaway disknum og setja bara eitthvað annað á fóninn á næstu sýningu, þetta meiddi meira en trébekkurinn.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home