Guðmundur munkur

fimmtudagur, mars 30, 2006

Aumingja ég

Ég held að ég hati ekkert jafn mikið eins og að vera með kvef og almennan slappleika, ég var frá vinnu síðasta þriðjudag vegna þessa og ég get svarið að dagurinn var sem vika að líða. Er sem betur fer að skríða saman, enda getur ekki verið að nokkur maður eigi jafn bágt og upplifi þær vítiskvalir sem ég þarf að þola þegar ég er veikur, fyrir utan kannski alla aðra karlmenn.

Læt þessa snilld fylgja til að létta okkur uppúr gráma hversdagsleikans, maðurinn er bara snillingur.

mánudagur, mars 20, 2006

Hestar og menn


Nei þetta er ekki Öskudagsmynd þótt ótrúlegt sé. Þessi afar skemmtilega mynd er tekin á söngvakeppninni sem haldin var um síðustu helgi. Keppnin var hin ágætasta enda nær fullt hús og stuð á liðinu. Brynja rúllaði þessu upp með flottri útgáfu af Janis Joplin laginu Me and Bobby McGee. Svo mjög fékk þessi flutningur á þá Vallabræður, að þeir stukku upp úr sætum sínum, æjuðu og óuðu, tilbáðu æðri máttavöld, féllust í faðma og fögnuðu sem óðir væru. Eftir að hafa fagnað eins og Húsvíkingar álverinu, skáluðu þeir í botn og skildist ekkert hvað þeir sögðu restina af kvöldinu. Næstu sæti tóku þeir Gústi ,,bjargvættur” og Hafþór Hallmunds, voru báðir ágætir en ég hefði frekar kosið Sveinbjörgu og Munda í annað og þriðja, en missi samt ekkert svefn yfir þessu.


Síðasta laugardagskvöld fór ég á hestasýningu í reiðhöllinni á Blönduósi. Já þið lásuð rétt. Kjartan í sjoppunni plataði mig með og skal það tekið fram að loforð um bjór, partý og koníak átti engan þátt í þessu ferðalagi mínu..............
Við komum vel tímanlega í höllina en þá var nær uppselt, og neyddumst við því til að sitja eins og fiskibollur í dós úti í horni á einhverjum þeim harðasta trébekk sem mitt rassgat hefur þurft að þola. Mér hefði ekki liðið verr á hnakklausu reiðhjóli.

En sýningin var ágæt, atriðin frekar rislítil fyrir hlé en batnaði til muna eftir það. Langlíflegasta atriði kvöldsins var tvímælalaust þegar Kjartan gólaði uppfyrir sig eins og smástelpa og henti sér í fangið á Haddý eftir að einhver ferfætlingurinn hneggjaði, já hann missti svo sannarlega kúlið um tíma. Önnur góð atriði voru sýningin hjá ræktunarbúinu á Völlum, Rauðu dívurnar (Hedda og félagar), Merin hennar Helgu Unu og að sjálfsögðu Töltmeistarinn sem hefði jafnvel fengið Björgvin Brynjólfsson til að sýna vott af áhuga á hestamennsku, annan en til átu.
Að lokum vil ég biðja heyrnarlausa dj-inn að henda Best of Haddaway disknum og setja bara eitthvað annað á fóninn á næstu sýningu, þetta meiddi meira en trébekkurinn.

föstudagur, mars 03, 2006

Versti dagur ársins

er án vafa Öskudagur, það jaðrar við mannréttindabrot að heyra lögin Hafið bláa hafið, Gamli Nói og Ég vildi ég væri (orðinn skipstjóri), hvað þá að heyra þau 50 sinnum sama daginn. Ég heiti því að vera ,,veikur" alla Öskudaga framvegis.

fimmtudagur, febrúar 16, 2006

Auglýsing

í dag er svokallaður mílusteinn í sögu Rónafélags Húnaþings og Stranda. Í dag hefur verið tekin ákvörðun miðstjórnar félagsins um að selja einn ástkærasta meðlim félagsins í svo óforskömmuðu mansali, að líknarfélögum blöskrar.

Hér er á ferðinni okkar kæri rónabíll.

Rónabíllinn hefur verið á meðal vor í nokkur ár, eða allt frá því að hann sleit barnskónum í faðmi Dóra á þverá. strax tókust ástir með anganum og hans nýju eigendum, þar sem margur hringurinn var farinn seint að kveldi til að gá hvort nýlegar viðbætur virkuðu ekki eins og skildi. Ótal mannstundum eyddu velunnarar í iðrum kauða við slíkar bætur. Eftir kaupin var til að mynda sætaskipan breytt þannig að vel fer nú um 7 í eldhúsinu. "rauða herbergið", sem hefur öðlast himneskan sess meðal þreyttra þjóðhátíðarfara, var opnað snemmsumars 2004 og dagblaðakóverið sem prýðir kjölinn kom ári seinna. Þá var stýrishúsið málað fögrum gulum litum á afar köldu júlíkvöldi sama ár.

Læknar votta það að Dóra sé ekki enn orðið heitt á fingrunum eftir þann hildarleik.

Úr rónabílnum hefur margt misjafnt komið.

-Í honum var lagið kremkex sungið að meðaltali þrisvar sinnum á klukkustund, frá klukkan 11 að morgni og framúr á síðustu þjóðhátíð.

-Af svölum bílsins var gefið popp í bílabíói síðasta sumar. Allar áætlanir um magn popps sprungu, svo að Döllu brá við allt poppið sem fram fór í eldhúsinu hjá henni. Kunnum við henni okkar bestu þakkir fyrir skjót viðbrögð.

-Kári smiður var í honum sömuleiðis gæsasteggjaður, þar sem met var sett í áfengisdrykkju innan ökutækis á ferð. Hreingerningin tók þrjá daga.

-Nú, að mati dómnefndar hafa verið farnir átta vatnsneshringir á bílnum, þar af tveir sama daginn síðasta sumar. Það merkilega við það er að Skúli fór ekki neina þeirra, hvorki í gæsaleit né -sýningu...

-Síðustu tvö ár hefur bíllinn verið notaður á tvær þjóðhátíðir, þar sem hann var keyrður suður á bóg rafmagnslaus í annað skiptið og í 80 vindstigum í hitt. Þá hafa jafnmargar ferðir verið farnar á hestamannamót utan húnaþings; fjórðungsmót dalamanna, þar sem loji rauðhaus keyrði á nýju landsmótsmeti og á eitt landsmót á hellu. Hefur verið gerður góður rómur eingöngu af bílnum á þessum mannamótum.

Listinn er nánast ótæmanlegur.

Þeim sem áhuga hafa á að bætast í keðju skemmtilegra manna sem hafa átt hlutdeild að bílnum, er bent á að hafa samband við eigendur. Halldór bethson svarar köllum í Sparisjóðnum, Skúli húdd hilla"djöfull-ertu-orðinn-feitur-þú-verður-að-koma-með-okkur-hróa-upp-á-fjöll"son er einnig memm, en hvar hann er að finna er ekki vitað. Ritarinn tekur svo við tilboðum í útibúi Rónafélagsins í Tékklandi.

Öllum tilboðum verður svarað, nema ef þau eru hlægilega lág.

miðvikudagur, febrúar 15, 2006

Waters í Egilshöll!!

Það munar ekki um það, Roger Waters, einn af stofnendum Pink Floyd og aðalkallinn í sveitinni, verður með tónleika í Egilshöll 12.júní í sumar. Þar ætlar hann m.a. að flytja plötuna Dark Side Of The Moon í heild sinni. Það er alveg á hreinu að ég læt mig ekki vanta. Þess má einnig geta að Waters verður aðal númerið á Hróaskeldu í sumar, spurning að skella sér þangað líka.

föstudagur, febrúar 10, 2006

Blótið og fleira

Þá er törnin sem fylgir Þorrablótinu loksins búin. Mikil en skemmtileg vinna sem fylgir þessu. Persónulega fannst mér blótið í ár, betra en í fyrra og líklega eitt albesta sem ég hef tekið þátt í. Ákváðum að brjóta upp formið á þessu og lögðum upp með aðrar áherslur þegar atriðin voru samin. Að mínu viti gekk það algjörlega upp. Annars var blótið í heild frábært og ég skemmti mér konunglega.

Tók mér óvart videóspólu í gær, droppaði inn í sjoppuna í allt öðrum erindagjörðum en endaði með myndina Oldboy í farteskinu. Ég vissi lítið um myndina annað en að hún væri Kóresk og einhverjir videónördar héldu ekki vatni yfir henni. Hún kom skemmtilega á óvart, mjög frumleg og öðruvísi mynd og laus við Hollywood klisjur. Tékkið endilega á henni.

Mikið lýst mér illa á að Geir Sveinsson sé að verða landsliðsþjálfari okkar Íslendinga. Geir var vissulega frábær leikmaður og mikill leiðtogi á velli, en hefur andskotans ekkert sannað sem þjálfari. Fyrir höndum eru tveir af mikilvægustu leikjum sem landsliðið hefur spilað og koma til með að ráða því hvort liðið kemst á HM og Ólympíuleikana. Fyrst Viggó var of hörundsár til að geta haldið áfram og Alferð ekki á lausu, á að leita út fyrir landsteinana og fá einhvern alvöru kappa. Reyndar er spurning hvort Offsi sé ekki á lausu, skilst að hann sé að hætta hjá Jóa toppmanni og því kjörinn í starfið.

þriðjudagur, janúar 17, 2006

I tried to do it quietly

Það var síður en svo það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég útskrifaðist frá Grunnskóla Hvammstanga nítjánhundruð og eitthvað, að ég ætti eftir að vera í dómnefnd í söngvarakeppni Grunnskólans síðar á lífsleiðinni. Nei Ísblóm, Murs og Appelsín áttu hug minn allann á þeim tíma. Ég hugsaði því Gunna Sveins þegjandi þörfina þegar ég vaknaði skítþunnur á laugardagsmorguninn eftir að hafa verið í standandi partýi til klukkan 7, það var jú téður Gunnar sem fékk mig í þetta dómarajob. Ég, Kjartan í sjoppunni og Helga Vilhjálms vorum í dómnefnd og ég held að við höfum sloppið ágætlega frá þessu. Punktur keppninnar var tvímælalaust þegar við vorum að afhenda verðlaun fyrir yngri flokkinn, en þá heyrðist pískrað út í sal ,,hver er þessi feiti sem stendur hliðina á Dóra”. Kjartan sást víst daginn eftir með fullann höldupoka af Herbalifevörum og árskort hjá Mikka upp á vasann.


Föstudaginn 27. janúar verða 250 ár liðin frá fæðingu Wolfgangs Amadeusar Mozart, og verður afmælis hans minnst víða um heim. Í síðdegisútvarpinu í dag var rætt við Jóhann Einarsson klarinettleikara um þennan atburð. Hann réði sér vart af spenningi. Ætli föstudagurinn verði almennt stærsti dagur ársins í lífi íslenskra klarinettleikara? Ég verð að muna eftir að fara í ríkið á föstudaginn.


Leikur ársins á sunnudaginn, Man Utd-Liverpool. Leikir liðanna eru tvímælalaust stærstu leikir tímabilsins og skiptir þá staða liðanna í deildinni engu máli. Í fyrsta skipti í langan tíma, finnst mér Liverpool vera með sterkara lið en Man Utd og er það vel. Í þessum leik mætast tveir bestu leikmenn deildarinnar, Gerrard og Rooney. En ég hef rifist við ófáa Man Utd menn um hvor þeirra sé betri, vona að Gerrard sanni mitt mál á sunnudaginn.